Tæknisæðing

Tæknisæðing er einfaldasta formið af tæknifrjóvgun. Aðeins er hægt að framkvæma tæknisæðingu ef eggjaleiðarar eru opnir.

Tæknisæðing er aðferð þar sem sáðfrumum (makans eða gjafasæði) er sprautað inn í leg konunnar gegnum leghálsinn með þunnum, mjúkum plastlegg. Þetta er hægt að framkvæma við egglos í náttúrulegum tíðahring eða eftir væga örvun eggjastokkanna. Mikilvægt er að fylgjast vel með hvenær egglos verður svo uppsetning sáðfrumanna sé gerð á réttum tíma.

Þessi aðferð getur verið fyrsta val þeirra sem eiga í erfiðleikum með að hafa samfarir. Aðferðin getur stundum hentað yngri pörum áður en flóknari meðferðarúrræðum er beitt.

Fyrir samkynja pör og einhleypar konur er tæknisæðing með gjafasæði kjörmeðferð. Góður árangur er af slíkum meðferðum. Tæknisæðing er síður heppileg fyrir pör sem sjálf hafa reynt heima í langan tíma án þess að þungun hafi orðið. Við óútskýrða ófrjósemi næst betri árangur með því að fara strax í tæknifrjóvgun en tæknisæðingu.